Færsluflokkur: Spaugilegt
Flugstjórnarklefinn og kaffiveitingar
18.2.2008 | 14:39
Flaug austur á land fyrir helgi vegna vinnunnar og kom til baka í gærkvöld, sem er svo sem ekki frásögu færandi en þar sem ég er mikill áhugamaður um flug eins og sumir vinir mínir vita, þá datt mér í hug að segja ykkur frá hugsunum mínum varðandi þjónustu um borð. Enda fylgist ég með öllu sem gerist í fluginu og hvernig vélin flýgur og hagar sér við hinar ýmsu aðstæður. Auðvitað allt í góðu. Jæja, hvað um það.
Í fluginu fær maður auðvitað kaffi í boði flugfélagsins en kaffið er að vísu oft ódrekkandi. Í þessu flugi byrjaði flugfreyjan að fara fram í flugstjórnarklefann til að bjóða flugmönnunum kaffi. Enda eins gott að halda sér vakandi við svo ábyrgðarmikið starf. Þegar flugfreyjan opnaði hurðina, þá blasti við mér flugmenn lesandi Moggann en þeir voru greinilega glaðir að fá sinn kaffisopa. Síðan skenkti hún okkur hinum sem sátum aftar kaffi og með því og allt rólegt í fluginu. Eftir smá tíma fór hún að nýju fram í flugklefann til að sækja bollanna eða fylla á ef flugmennirnir vildu meira. Enn voru þeir að lesa blöðin.
Ég hugsaði með mér: Hvað næst? Ætli hún komi ekki aftur í farþegarýmið og spyrji okkur farþeganna hvort einhver kunni ekki á Flight Simulator (flughermi)?
Alla veganna hefði ég verið fljótur að rétta upp höndina.
Auðvitað þurfa flugmenn pásur eins og við hin. En að lokum lentu þeir vélinni mjúklega í Reykjavík nokkrum mínútum síðar endurnærðir og með einbeitinguna í lagi enda bestu flugmenn sem völ er á og þjónustan um borð alveg til fyrirmyndar. En ég fékk ekki að fljúga í þetta sinn enda eins gott, kannski.
Þið getið ekki trúað því hvað ég er fegin að þurfa ekki að dandalast suður í Keflavík til að fara í innanlandsflug eins og sumir þrá en hafa aldrei farið í innanlandsflug.
Svo er greinilegt að flugið er notað af höfuðbogarbúum því það var nánast ekkert laust bílastæði við Reykjavíkurflugvöll og þó er búið að stækka bílastæðið mikið.
Hver kannast ekki við þetta
12.2.2008 | 14:36
Er þetta ekki eitthvað sem þið kannist við þegar þið eruð að fara í flug?
- Ekkert flugfélag er á réttum tíma nema þegar þú sért of sein og þarft á seinkun að halda.
- Ef þú ert oft seinn í flug, þá þarf flugið endilega að vera við brottarhliðið sem er lengst í burtu í flugstöðinni.
- Ef þú mætir tímalega, þá bregst það ekki, að fluginu hefur verið er seinkað.
- Hvenær hefur þú séð flug fara frá í hliði 1 (Gate #1) í flugstöðvarbyggingum?
- Ef þú þarft að vinna eitthvað á meðan flugi stendur t.d. að skrifa á blað, þá upplifir þú fljótt ókyrrð. Líka þegar þú færð þér kaffi.
- Ef þú færð miðjusæti, þá getur þú bókað, að þeir sem koma til með að sitja við gluggann eða við ganginn eru ókomnir. Líttu bara eftir tveimur stærstu mönnunum í röðinni.
- Sá sem situr við gluggann þarf alltaf að skreppa á snyrtinguna.
- Öskrandi börn virðast alltaf sitja mjög nálægt þér.
- Fallegasta konan/karlmaðurinn situr aldrei nálægt þér.
- Eftir því sem plássið er minna í flugvélinni til að koma fyrir handfarangri, þá koma farþegar alltaf með meira og meira með sér um borð.
- Þegar flugfreyjan kynnir öryggisatriði í upphafi flugs þá þykist þú kunna þetta allt og lest í dagblaði á meðan.
- Eftir að karlmenn hafa farið á snyrtinguna þá er ekki hægt að fara þangað á sokkunum.
sótt héðan og þaðan af netinu en sumt samið.