Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Jarðskjálftinn

Ég er einn af þeim sem reynt hefur að koma að gagni við að hjálpa öllum íbúum fyrir austan fjall sem lentu jarðskjálftunum sl. fimmtudag.   Skrítið að upplifa þetta svona aftur eftir það sem ég sá árið 2000, en ég held að það geti engan sett sig í spor þeirra sem voru núna á staðnum þar sem höggbylgjan var hörðust; á Selfossi, í Hveragerði og nágrenni.  

Ég var staddur í vinnunni minni í Efstaleiti þegar jarðskálftinn reið yfir og ég fann vel fyrir högginu. Krakkarnir mínir hringdu óttaslegin í mig en þau voru ein heima.  Auðvitað fór ég heim til að róa þau. Sem betur fór var ekkert að en hver verður ekki óttasleginn við að upplifa jarðskjálfta?   En ég var ekki búin að vera lengi heima þegar það var hringt og ég beðin um að koma strax aftur í vinnuna því það væri búið að setja allt neyðarvarnakerfið í gang.   Því var ekki annað um að gera en að koma krökkunum fyrir því ég þóttist vita að þetta yrði langur vinnudagur.  

Það er gaman að sjá hvað allir eru boðnir og búnir að leggja fram hjálp þegar svona ósköp dynja yfir. Margir af mínum vinnufélögum hafa varla litið upp frá því á fimmtudaginn.  Við sem höfum ekki upplifað svona harðan jarðskjálfta getum ekki sett okkur í spor þeirra sem voru á staðnum fyrir austan fjall.  Held að fréttamyndirnar sem sýndu brot úröryggismyndavélunum, hafi sýnt vel hversu mikil hætta var á ferðum.  Jörðin undir öllum húsunum var trúlega að færast til, fram og til baka, um heilann metra ef ekki meira og húsin færðust með. 

Það mun taka íbúanna langan tíma að jafna sig eftir svona áfall og vonandi fá allir sem á þurfa að halda sálræna hjálp hjá vinnufélaga mínum, honum Jóhanni Th. sálfræðingi Rauða krossins og hópnum hans, því það ætti engin að reyna að leika hetju og byrgja inni svona áfall.    


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband